Á sjöunda hundrað fjár var réttað í skilaréttum í Skaftholtsréttum í Gnúpverjahreppi um síðustu helgi. Langmest af fénu kom úr eftirsafni af Skeiðaafrétti um 540 talsins.
Eftirsafnið af Gnúpverjaafrétti taldi 77 sem kom af fjalli. Var þetta í fyrsta sinn sem skilarétt fyrir þessa afrétti er sameiginlega.
„Þetta var vissulega óvanalega margt,“ segir Hafliði Sveinsson á Ósabakka á Skeiðum sem var fjallkóngur í austurleitinni á Skeiðaafrétti. Að hans sögn kemur það til vegna þoku sem var síðasta daginn í fyrsta safni þar sem illa gekk að smala. Hafliði segir eftirsafnið hafa gengið ágætlega.
Segir Hafliði að enn vanti fé, t.a.m. vanti hann sjálfan uppundir tuttugu kindur, en eftir fyrsta safn vantaði yfir sextíu fjár í hans hóp. Það er í samræmi við frásögn annarra bænda sem vantaði um 15 til 20% af því sem rekið var á fjall.