Selfossbíó sýnir um helgina heimildarmyndin „Vikingo“, sem fjallar um ævintýri Jóns Inga Gíslasonar í Kjarnholtum í Biskupstungum, ferðalög hans og kynni af heimamönnum í Dóminikanska lýðveldinu, hanaati og fleiru.
Myndin verður sýnd í Selfossbíó á laugardag og sunnudag, kl. 18 og 20, og ef aðsókn verður mikil, verður efnt til fleiri sýninga. Myndin er ekki einungis um Tungnamann, því það er Þorfinnur Guðnason, sem ættaður er úr Tungunum og bjó þar um hríð, sem framleiðir myndina. Þorfinnur hefur áður leikstýrt og framleitt myndir, svo sem um Lalla Johns, Sumarlandið og Músamyndina, sem tekin var upp í Biskupstungum.
Jón Ingi segir tildrög að gerð myndarinnar vera þau að hann hafi í gamni skotið því að Þorfinni að koma með sér suður í Karíbahafið og festa á filmu það líf og þá menningu sem hann hafi upplifað þar. „Það var sífellt verið að spyrja mann um lífið þarna niður frá og mér fannst upplagt að hann hjálpaði mér að lýsa þessu,“ segir Jón Ingi.
Jón hefur þar um árabil ræktað bargdagahana og Vikingo kynið hans er þar eitt þekktasta í landinu. Hann segir að einn daginn hafi svo grínið snúist upp í alvöru. „Þorfinnur athugaði með styrki, og það tóku allir þessari hugmynd vel og því var ráðist í þetta,“ segir Jón Ingi.
Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu