Markaðsstofa Suðurlands hefur nú verði starfrækt í tvö ár og unnið ötullega að því að styrkja hlutdeild fyrirtækja á Suðurlandi í ferðamannastraumnum og þjónustu við ferðamenn.
Síðastliðinn vetur var tekin upp sú nýbreytni að bjóða ferðakaupendum í kynnisferðir um svæðið.
Davíð Samúelsson, framkvæmdastjóri Markaðsstofunnar, er ekki í vafa um að kynning af þessu tagi skili sér í auknum fjölda ferðamanna inn á svæðið. “Vel skipulagðar kynnisferðir fyrir ferðakaupendur er einföld og ódýr leið til markaðssetningar fyrir ferðaþjónstufyrirtækin meðal helstu ferðasala inn á svæðið erlendis. Með þessu móti fáum við á einu bretti heim á hlað fjölda ferðaheildasala og ferðaskrifstofa sem ekki er víst að við hefðum náð til eftir öðrum leiðum. Svo eru það gömul sannindi og ný að fátt hefur meiri áhrif en heimsókn heim í hérað. Það skiptir ekki síst máli fyrir minni fyrirtækin, sem hafa takmörkuð fjárráð til markaðssetningar. Það eru ekki síst þau sem við vinnum fyrir,” segir Davíð og bætir við að fjöldi fyrirtækja sem gerast aðilar að markaðsstofunni fara stöðugt vaxandi og þau séu fljót að sjá ávinninginn af því að setja traust sitt á hana.
Í ár hafa 30 bæst í hóp þeirra 140 fyrirtækja sem njóta þjónustu Markaðsstofunnar og þeirrar markaðssetningar sem hún getur boðið.
Á næstunni kemur út nýr landshlutabæklingur helgaður þjónustufyrirtækjum á Suðurlandi. Þar eru skráð öll ferðaþjónustufyrirtæki á svæðinu, en ítarleg grein eru þó eingöngu gerð fyrir þeim fyrirtækjum sem eru aðilar að Markaðsstofunni.
Sams konar bæklingur er gefinn út í öllum landshlutum og hann virkar því sem eins konar lykill að þeim. Davíð bendir á að það skipti ekki síst máli fyrir allan þann fjölda ferðamanna sem kýs að ferðast á eigin vegum um landshlutann.
“Það skiptir miklu máli að hafa á einum stað uppfærðar upplýsingar um þá þjónustu sem er í boði þegar menn ferðast um svæðið. Við rekum öfluga heimasíðu og uppfærum hana stöðugt. Ferðamenn eru hins vegar ekki með aðgang að netinu á öllum tímum og ótrúlega margir stóla eingöngu á bæklinginn okkar þegar þeir fara um Suðurland,” segir Davíð en tekið er við skráningum í bæklinginn fram til 15. júlí nk.