Markarfljót komið í „réttan“ farveg

Vinna við tilfærslu Markarfljóts gengur vel en með verkinu er vonast til að aurburður minnki í átt að Landeyjahöfn.

„Þetta gengur bara vel, við erum meira en hálfnaðir og allt stefnir í að verkinu verði lokið í lok næstu viku,“ sagði Helgi B. Gunnarsson, yfirverkstjóri hjá Suðurverki, í samtali við sunnlenska.is.

Verkið felst í nýjum 600 metra löngum varnargarði sem teygir sig í austur út frá eldri garði til móts við veginn vestur að Bakkaflugvelli.

„Fljótið er komið í þann farveg sem það á að vera í. Við hófum verkið á því að ýta því frá okkur þannig að nú er það á réttum stað. Þetta var alltaf að færa sig vestar,“ segir Helgi.

Efni í garðinn var til á „lager“ Suðurverks og hafði verið flutt niður af Seljalandsheiði við byggingu Landeyjahafnar.

Fyrri greinBjarni les um Sigurð fót á Sögu
Næsta greinBæta við 24 hótelherbergjum