Þessa dagana standa yfir framkvæmdir í og við Gjánna í Þjórsárdal. Þar er unnið að viðhaldi og uppbyggingu göngustígs frá Stöng að Gjánni norðan megin og til baka frá Gjánni sunnan megin að bílastæðinu við Stöng.
Nú er unnið að fyrsta áfanga af þremur og að sögn Hákons Ásgeirssonar, teymisstjóra hjá Umhverfisstofnun, er stefnt á að honum verði lokið í júlílok. Umhverfisstofnun er framkvæmdaraðili á svæðinu og verktakafyrirtækið Stokkar og steinar vinnur verkið.
„Í þessum áfanga er gerður náttúrustígur frá Stöng og niður í Gjánna norðan megin, settar brýr yfir árnar í Gjánni og með því verður hringleiðin greiðfærari,“ segir Hákon. „Í öðrum áfanga verður farið í viðhald og uppbyggingu á göngustígum og útsýnisstöðum og gönguleiðin upp úr Gjánni sunnan megin endurgerð. Í þriðja áfanga verður farið í gerð útsýnisstaðar ofan Gjárinnar sunnan megin, sem verður aðgengilegur hreyfihömluðum, bílastæði verða færð fjær brún Gjárinnar og gönguleiðin þaðan að bílastæðinu við Stöng beturumbætt með viðhaldi og uppbyggingu í samræmi við göngustíginn norðan megin.“
Hákon segir að meginmarkmiðið með þessari framkvæmd sé að bæta stýringu um svæðið til að vernda náttúru svæðisins og bæta aðgengi og upplifun gesta.
„Það er lögð áhersla á að göngustígar og útsýnisstaðir falli sem best að umhverfi sínu, til að raska ekki náttúrulegri ásýnd svæðisins,“ segir Hákon ennfremur.
Umhverfisstofnun fékk 63,2 milljón króna styrk til verndaraðgerða í Gjánni, merkinga og afmarkana, úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða frá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu í verkefnaáætlun áranna 2020 til 2022.