„Markmiðið er að bæta mannleg samskipti“

Einar Ingi Ingvarsson og Óli Þorbjörn Guðbjartsson, hlaðvarpsstjórar og fellar. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Nýverið hóf hlaðvarpið Tveir fellar göngu sína. Á bak við þáttinn standa Selfyssingarnir Óli Þorbjörn Guðbjartsson og Einar Ingi Ingvarsson, sextán ára strákar sem vinna í Bónus á Selfossi.

„Þegar við vorum í 10. bekk var aðstaða til að taka upp hlaðvarp í skólanum. Við spurðum kennarann hvar þeir keyptu allan búnaðinn og ákváðum í framhaldinu að kaupa okkur græjur og byrja sjálfir með þátt,“ segir Óli í samtali við sunnlenska.is.

Einar segir að eftir að græjurnar komu í hús þá hafi það tekið þá eina viku að búa til nafn og gerð á þætti. Fyrsti þátturinn fór svo í loftið 29. desember síðastliðinn.

Síðan hlaðvarpið hóf göngu sína hafa þeir vinirnir meðal annars tekið viðtöl við Þorgrím Þráinsson, Sölva Tryggvason, Friðrik Larsen, Guðjón Ara og Siggu Dögg.

Einskonar menningarþáttur
„Við ákváðum að stofna hlaðvarpið Tveir fellar til að kynnast fleira fólki og fræða okkur um lífið og tilveruna. Hlaðvarpið er einskonar menningarþáttur þar sem að við spjöllum saman um hvað sem er og tökum viðtöl við áhugavert fólk,“ segir Einar.

„Markmiðið okkar með þessu hlaðvarpi er að bæta mannleg samskipti og þroskast,“ segir Einar og bætir því við að þættirnir hafa gengið mjög vel. Rúnar Freyr Gunnarsson, 15 ára vinur strákanna, hefur auk þess hjálpað þeim af og til með upptökur á þáttunum.

Þrettán ára vinátta
Nafnið á hlaðvarpinu, Tveir fellar, er komið af enska orðinu fellows. „Við völdum þetta nafn af því að við höfum verið mjög góðir vinir í þrettán ár. Við vinnum mjög vel saman en eins hjá öllum erum við ekki alltaf sammála en við finnum alltaf lausn á vandamálunum,“ segir Óli.

Þátturinn er oftast tekinn upp á Selfossi eða í Breiðholtinu en Óli segir að þeir geti samt tekið upp hvar sem er.

Aðspurðir hvernig fjölskyldan og vinirnir hafi tekið hugmynd þeirra að byrja með hlaðvarp segir Óli að viðbrögðin hafi verið mjög jákvæð. „Við höfum fengið frábær viðbrögð frá öllum aldurshópum. Það hlusta að meðaltali 183 á þáttinn og samtals eru það 3.790 sem hafa hlustað.“

Þeir vinirnir hlusta sjálfir mikið á hlaðvörp, eins og til dæmis Sölva Tryggva, Snorra Björns og Beint í bílinn. Draumaviðmælandi Óla er Aron Mola og draumaviðmælandi Einars er Laddi.

Leita að styrktaraðilum fyrir þáttinn
„Framundan eru margir góðir gestir og frábærir þættir. Næsta skref hjá okkur er að finna styrktaraðila til að styrkja þáttinn. Við erum á YouTube og öllum helstu hlaðvarpsveitum. Ef þið hafið hugmynd af þætti/gesti getið þið sent okkur á Instagram @tveirfellar eða á tveirfellar@gmail.com,“ segir vinirnir að lokum.

Fyrri greinWorld Class opnar á Hellu
Næsta greinTvö HSK met í Laugavegshlaupinu