MAST sektar bú á Suðurlandi vegna hirðuleysis

Höfuðstöðvar Matvælastofnunar á Selfossi. sunnlenska.is/Sigmundur

Matvælastofnun hefur á síðustu misserum tekið stjórnvaldsákvarðanir er snúa að brotum og frávikum vegna dýravelferðar. Annars vegar er um að ræða dagsektir og hins vegar stjórnvaldssektir.

Dagsektir eru settar til að þvinga fram úrbætur hjá umráðamönnum dýra og hefur stofnunin ákvarðað um 10 þúsund króna dagsektir á tvö bú á Suðurlandi eftir að umráðmenn þeira höfðu ekki brugðist við kröfum um úrbætur.

Í öðru tilvikunu er kúabú sektað fyrir ófullnægjandi frágang og innréttingar í fjósi en í hinu tilvikinu voru mörg frávik skráð á sama hrossa- og sauðfjárbúinu. Þar höfðu verið gerðar athugasemdir við klauf- og hófhirðu, innréttingum og slysavörnum var áfátt, fóðrun sauðfjár var ábótavant, hluti fjár ekki rúið og ekki búið að bólusetja fé.

Stjórnvaldssektir á sláturhús
Stjórnvaldssektir eru hins vegar refsing sem er beitt vegna fullframinna brota. Þær voru meðal annars lagðar á sláturhús á Suðvesturlandi sem lét fótbrotinn grís liggja yfir heila helgi í sláturrétt áður en honum var slátrað. Grísinn mun hafa fótbrotnað í flutningi til sláturhússins. Samkvæmt reglum hefði átt að slátra honum strax við móttöku. Sláturhúsið var sektað um 160 þúsund krónur.

Í öðru tilviki braut sláturhús dýravelferðarlög með því að einn grís var vegna mistaka ekki sviptur meðvitund og blóðtæmdur fyrir aflífun. Stjórnvaldssekt í því tilviki var ákvörðuð 145 þúsund krónur.

Fyrri greinValgerður þrefaldur Íslandsmeistari með „ör“ litlum mun
Næsta greinHreppamenn halda hagyrðingakvöld