Á morgun opnar tælenski veitingastaðurinn Rak Thai að Austurvegi 3-5 á Selfossi. Staðurinn er á sama stað og veitingastaðurinn Vor og er svokallaður PopUp veitingastaður, það er veitingastaður sem verður í skamman tíma.
Rak Thai þýðir við elskum tælenskt og eru eigendur staðarins þeir sömu og eigendur Vor, hjónin Supranee Aris Kristinsson og Sigurður Ásgeir Kristinsson – ávallt kölluð Aris og dr. Siggi – ásamt hjónunum Tómasi Þóroddssyni og Idu Sofiu Grundberg.
„Aris og dr. Siggi keyptu sig inn í Vor, núna í vor. Þau buðu okkur Idu í mat og hann var svo geggjaður maturinn þannig að þessi hugmynd bara fæddist þar,“ segir Tómas í samtali við sunnlenska.is.
Gera meira af því sem virkar
Á matseðlinum verða fjölbreyttir og sígildir tælenskir réttir. „Við erum búin að vera að prufa réttina núna í vikunni og þeir hafa mælst mjög vel fyrir. Þetta eru réttir eins og pad thai, satay kjúklingur, kjúklingur kasjú, risarækjur, núðlur og fleira í þeim dúr,“ segir Tómas og bætir því við að hægt verður að taka matinn með í takeaway og getur fólk pantað af heimasíðu Vor.
„Hugmyndin er að kannski kæmu reglulega PopUp staðir inn á Vor, sem eru í kannski þrjá til sex mánuði,“ segir Tómas og bætir því við að ef vel gengur þá gæti PopUp staðurinn orðið að varanlegum stað. „Það er einmitt hugmyndin með PopUp – að tékka hvort þetta virki og ef þetta virkar, þá gera meira.“
Þakklátur Selfyssingum fyrir stuðninginn
Tómas gerir ráð fyrir því að ráða inn aukastarfsfólk þar sem maturinn hennar Aris er einfaldlega svo góður og viðbúið að hann slái í gegn hjá Selfyssingum og nærsveitungum.
„Við erum mjög ánægð á Vor með hvað Selfyssingar standa vel við bakið á okkur, það er alveg aukin samkeppni og allt þetta. Fólk vill frekar styðja fyrirtæki sem styrkja íþróttirnar á svæðinu,“ segir Tómas að lokum.