Matarkistan opnuð á laugardag

Á Flúðum. sunnlenska.is/Helga R. Einarsdóttir

Það verður mikið um dýrðir í Hrunamannahreppi um næstu helgi þegar uppskeruhátíðin Matarkistan fer fram á laugardag.

Matarkistan opnar markað í félagsheimilinu á Flúðum kl. 12:00 þar sem kaupa má matvæli úr sveitinni, alls kyns ferskt grænmeti og góðgæti beint frá býli, en einnig handverk og listmuni og fleira. Kvenfélagið verður með kaffi og kleinusölu í veitingastofunni.

Dagurinn byrjar á uppskerumessu í Hrunakirkju og eftir hádegi verður opið hús hjá Önnu í Bjarkarhlíð og á Laugarlandi verður meðal annars handverk og dúkkusýning. Samansafnið á Sólheimum er opið sem og fótboltagolfvöllurinn Markavöllur.

Litla Melabúðin býður upp á fjölbreytt úrval af vörum beint frá býli og í Litla húsinu verður markaður með gamla muni.

Opna íslenska grænmetismótið í golfi verður haldið á Efra-Selsvelli og veitingageirinn lætur sitt ekki eftir liggja því Kaffi-Sel, Kaffi-Grund, Farmers Bistro og Hótel Flúðir verða með opið og ýmislegt í boði þar.

Auðvitað verður svo sundlaugin Flúðum opin milli 13 og 18 og í Lækjargarðinum er bæði frisbígolfvöllur og ærslabelgur.

Fyrri greinMikið í ám á Þórsmerkurleið
Næsta grein„Halló, halló, ferja!“