Matarsmiðja lætur nýsköpun blómstra

Samkomulag um stofnun og starfsemi Matarsmiðjunnar á Flúðum var undirrituð í síðustu viku.

Síðustu misseri hefur verið unnið að undirbúningi matarsmiðjunnar í uppsveitum Árnessýslu sem verður miðstöð fyrir vöruþróun og fullvinnslu á grænmeti og til að efla fag- og háskólamenntun á svæðinu með kennslu og rannsóknum.

Meginmarkmið verkefnisins er að byggja upp þróunarsetur fyrir smáframleiðslu matvæla, þ.e.a.s koma á smáframleiðslu, vöruþróun og rannsóknum á afurðum úr ylrækt á svæðinu og skapa þannig ný og áhugaverð tækifæri á Flúðum og nágrenni en ekki síður að skapa mikilvægan vettvang fyrir frumkvöðla og smáframleiðendur að fullvinna vörur sínar til markaðssetningar.

Á Flúðum munu samstarfsaðilar leigja húsnæði og koma upp nauðsynlegri aðstöðu fyrir starfsemi Matarsmiðjunnar. Ætlunin er að bjóða frumkvöðlum og smáframleiðendum upp á sérfræðiaðstoð til að þróa vörur án þess að leggja út í mikinn kostnað við aðstöðu, búnað og starfsleyfi á meðan verið er að koma vörum á markað. Á næstunni mun starfsmaður verða ráðinn í fullt starf í smiðjuna.

Atvinnuþróunarfélag Suðurlands, Háskólafélag Suðurlands, Hrunamannahreppur, Bláskógabyggð, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Grímsnes- og Grafningshreppur, garðyrkjumenn, Matís og Háskóli Íslands hafa unnið að undirbúningi Matarsmiðjunnar.

Fyrri greinSelfoss fær tíu milljónir frá KSÍ
Næsta greinKeflavík – Selfoss 2-1