Skipulagsstofnun hefur í dag kynnt fyrir Landsvirkjun þá ákvörðun að endurskoða skuli að hluta matsskýrslu um umhverfisáhrif Hvammsvirkjunar. Þar er um að ræða þætti er varða áhrif á landslag og ásýnd lands og áhrif á ferðaþjónustu og útivist.
Forsendur stofnunarinnar fyrir ákvörðun um endurmat á landslagi og ásýnd lands eru breyttar áherslur við mat á sjónrænum áhrifum og ný náttúruverndarlög þar sem aukin áhersla er lögð á gildi landslags miðað við það sem gert var fyrir tíu árum.
Forsendur fyrir endurskoðun á mati á ferðamennsku og útivist er að meginhluta til komin vegna enn meiri aukningar ferðamanna hér á landi umfram það sem reiknað var með í fyrirliggjandi mati frá 2003.
Mat frá 2003 á mikilvægum umhverfisþáttum heldur gildi sínu
Mat á umhverfisáhrifum fyrir Hvammsvirkjun frá 2003 heldur gildi sínu hvað varðar einna mikilvægustu umhverfisþætti virkjunarinnar svo sem áhrif á vatnalíf, vatnafar, landnotkun, menningarminjar, jarðveg, gróður og fok, fuglalíf, jarðmyndanir og náttúruvá.
Um leið er þessi niðurstaða Skipulagsstofnunar staðfesting á því að fyrirtækið hefur staðið við þá fyrirvara er settir voru af hálfu Skipulagsstofnunar og Umhverfisráðuneytis í úrskurðum þessara aðila um matið fyrir virkjunina frá 2003.
Í fréttatilkynningu frá Landsvirkjun segir að niðurstaða Skipulagsstofnunar sé ekki í samræmi við það álit Landsvirkjunar að fyrirliggjandi mat á umhverfisáhrifum hafi verið fullnægjandi. Landsvirkjun mun nú skoða forsendur þessarar ákvörðunar, hversu mikla vinnu og rannsóknir endurmat þessara þátta hafi í för með sér og hve langan tíma það ferli taki. Ljóst er þó að þessi ákvörðun mun fresta undirbúningsvinnu og gangsetningu virkjunarinnar er nemur þeim tíma sem endurmatið mun taka.
Sjá nánar á vef Skipulagsstofnunar.