Með 11 ára barn í skottinu

Lögreglan á Suðurlandi kærði ökumann í liðinni viku fyrir að aka með 11 ára barn í skotti skutbifreiðar sinnar.

Skammt er síðan farþegi sem fluttur var með sama hætti kastaðist út úr bifreið og lést þegar bifreiðin valt á Biskupstungnabraut. Ökumaður þeirrar bifreiðar fékk nýverið dóm fyrir manndráp af gáleysi.

Í dagbók lögreglunnar kemur fram að ökumaður þessarar bifreiðar sleppi hinsvegar vel og þarf hann einungis að greiða 15 þúsund króna sekt fyrir brot sitt.

Annars hafði lögreglan í nógu að snúast í síðustu viku og meðal annars voru 103 ökumenn kærðir fyrir að aka of hratt.

Einn þeirra reyndist jafnframt vera sviptur ökurétti. Flestir voru stöðvaðir á þjóðvegi 1 í Skaftafellssýslunum. Um 60 % þeirra sem aka of hratt eru erlendir ferðamenn á bílaleigubílum. Hraði þeirra er líka að jafnaði meiri en íslenskra ökumanna sem lenda í hraðamælunum því meðal sekt erlendu ökumannanna þessa viku er um 43 þúsund krónur en þeirra íslensku um 39 þúsund krónur.

Lögreglan ítrekar að hraðakstur er ein algengasta orsök alvarlegra slysa í umferðinni.

Einn ökumaður var kærður fyrir að aka ölvaður í liðinni viku og fjórir fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna.

Fyrri greinLíf og fjör á Flúðum um verslunar-mannahelgina
Næsta greinKlemmdist á fæti í vinnuslysi