Ungur maður var handtekinn á Austurvegi á Selfossi skömmu fyrir kl. fimm í morgun með fulla vasa af þýfi.
Lögreglumenn í eftirlitsferð urðu mannsins varir og ákváðu að kanna hverra erinda hann var. Kom í ljós að maðurinn var með fulla vasa af ýmsu dóti og vaknaði grunur um að það væri þýfi.
Síðar kom í ljós að brotist hafði verið inn í þrjá bíla á Austurvegi, Fagurgerði og Reynivöllum. Úr einni bifreiðinni var verkfærum að verðmæti um 300 þúsund krónum stolið. Nánari eftirgrennslan og rannsókn leiddi lögreglumenn að húsi á Selfossi þar sem hluti þýfisins fannst.
Maðurinn sem grunaður var um innbrotin í bílana var á reynslulausn. Hann var færður fyrir dómara sem mun úrskurða hvort maðurinn hafi rofið skilorð. Grunur er um að maðurinn hafi átt sér tvo vitorðsmenn sem vitað hverjir eru og er þeirra leitað.
Annars hafa lögreglumenn á Selfossi haft nóg að gera síðasta sólarhringinn en níu ökumenn hafa verið kærðir fyrir hraðakstur á Suðurlandsvegi í umdæmi lögreglunnar á Selfossi og einn kærður fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.