Með geitungabú í svefnherberginu

Bjarni Ingimarsson, stöðvarvörður í Írafossstöð, uppgötvaði heldur óskemmtilegan sambýling þegar hann mætti til vinnu á Írafossi í gærkvöldi.

Þar hafði geitungadrottning komið sér upp búi utan á gardínukappa fyrir innan glugga og sá fram á þægilega sambúð með Bjarna í sumar.

„Ég var frekar hissa á að sjá geitungabú þarna því að ég vissi ekki að þær myndu útbúa bú innandyra. Herbergið er búið að vera autt í viku þannig að geitungarnir hafa fengið að athafna sig þarna í friði. Kúlan var sirka á stærð við golfkúlu,“ sagði Bjarni í samtali við sunnlenska.is.

Erling Ólafsson, skordýrafræðingur, hjá Náttúrufræðistofnun Íslands skoðaði myndina og sagði að þarna væri á ferðinni klassískur trjágeitungur. „Hann er ólíkindatól og getur tekið upp á þessu, að koma inn um glugga og gera sér bú þar fyrir innan.“

Fyrri greinSelfoss fékk ÍBV í bikarnum
Næsta greinFíkniefni fundust við húsleit