Sumarið 2007 tóku Rangæingarnir Þórarinn B. Þórarinsson og Ragnheiður Pálsdóttir sig upp af Suðurlandi og fluttu um set til Vesturlands.
Þau settust að í Hvítadal í Saurbæ í Dölum og hófu þar búskap með kindur og hross. Skrefið var tekið frá því að vera leiguliðar í Kastalabrekku í Ásahreppi til þess að verða sjálfstæðir bændur á eigin bújörð fyrir vestan. Í reynd var þetta ekki skref. Þetta var djarft stökk.
Með þessu yfirgáfu þau átthagana, skyldmenni og vini til að festa rætur í landshluta sem þau höfðu vart komið til áður og þar sem þau þekktu enga. Svo kom hrunið. En þau eru enn í Hvítadal og líður vel með börnum sínum og bústofni.
Ungu hjónin þurftu ekki að kvíða viðtökunum vestur í Dölum þegar þau fluttu þangað. „Þær voru góðar og hér er gott að búa. Þó við séum komin yfir fertugt þá erum við enn með yngstu bændum hér um slóðir. Við höfum oft verið spurð af hverju við fluttum hingað. Okkar svar er að spyrja á móti. Af hverju ekki? Þetta er orðið allt öðruvísi en var fyrir nokkrum árum.
Hefðum við komið og skoðað hér í Hvítadal nokkrum árum fyrr þá hefði ég líkast til neitað að flytja hingað. Þegar okkur bar að þá var verið að ljúka við að leggja slitlag á veginn um Svínadal hér suður af. Ég hef séð myndir af þeim vegi eins og hann var áður og heyrt lýsingar. Það hefði dugað til að fæla mig frá. Samgöngumál hér í dag eru í mjög góðu lagi. Dalir eru í alfaraleið,“ segir Ragnheiður í viðtali við Skessuhorn.
Lesa má ítarlegt viðtal við hjónin í Hvítadal í Saurbæ í Dölum í Skessuhorni sem kom út í gær.