Tíundi bekkur Vallaskóla á Selfossi heldur flóamarkað í Tryggvaskála í dag en markaðurinn komst í uppnám í gær þegar Heilbrigðiseftirlit Suðurlands bannaði sölu á heimabökuðum kökum.
Tíundubekkingarnir halda þó sínu striki og á markaðnum í Tryggvaskála er ýmislegt í boði, bækur, skrautmunir og fatnaður. Auk þess geta gestir tyllt sér niður í kaffi og vöfflur.
Rannveig Anna Jónsdóttir, einn foreldranna sem stendur að markaðnum, leitaði til sýslumannsembættisins á Selfossi í morgun og fékk þar staðfestingu á því að krakkarnir mættu selja vöfflur sem bakaðar eru í Tryggvaskála, þrátt fyrir að þar sé ekki „viðurkennt eldhús“.
„Við fengum geysilega mikil viðbrögð við fréttum gærdagsins og það eru margir sem hafa haft samband við okkur vegna þessa. Fyrir Alþingi liggur fyrir breyting á lögum um matvæli og mér skilst að það mál verði afgreitt í vor, sem betur fer, því annars væri verið að kippa fjáröflunarmöguleikum undan bæði íþróttafélögum, kórum, tónlistarhópum og fleiri,“ sagði Rannveig Anna í samtali við sunnlenska.is.