Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í gær Benediktu Haukdal til að greiða Eggerti Haukdal 300 þúsund króna bætur fyrir meiðyrði og Eggert var dæmdur til að greiða Benediktu sömu upphæð.
Þá eru tiltekin ummæli, sem Benedikta Haukdal viðhafði á MySpace um Eggert og sambýliskonu hans á árinu 2008 dæmd dauð og ómerk. Einnig eru tiltekin ummæli, sem Eggert viðhafði um Benediktu og eiginmann hennar í bréfum árið 2007 dæmd dauð og ómerk.
Málið tengist langvinnum deilumálum, sem ítrekað hafa komið til kasta dómstóla en þau hófust eftir að Eggert seldi Benediktu og manni hennar jörðina Bergþórshvol 2 með þeirri kvöð að hann hefði til lífstíðar búseturétt í íbúðarhúsinu á jörðinni.
Ummælin sem Eggert kærði birtust MySpace síðu Benediktu. Héraðsdómur féllst á að ummæli þar sem m.a. er talað um dauðalista og eitursprautur skyldu dauð og ómerk. Önnur ummæli, þar sem m.a. var talað um karlskrögg, ómaga og „hnýsnu Guddu“ voru talin innan marka tjáningarfrelsis.
Þá voru ummæli sem Eggert viðhafði í bréfi um að Benedikta og maður hennar hefðu eignað sér búpening á smánarverði og nýtt sér slæma heilsu Eggerts dæmd dauð og ómerk. Einnig ummæli um í lesendabréfi í DV þar sem Eggert sakaði Benediktu og mann hennar um sauðaþjófnað.