Tugum starfsmanna var sagt upp störfum hjá fiskvinnslufyrirtækinu Frostfiski í Þorlákshöfn í gær. Frostfiskur sé fjölmennasta fiskvinnslufyrirtækið í Þorlákshöfn og kaupir allan sinn fisk á mörkuðum.
Greint var frá þessu á vef Hafnarfrétta en Steingrímur Leifsson, forstjóri Frostfisks, staðfestir í samtali við mbl.is að 33-34 starfsmönnum hafi verið sagt upp.
„Þetta er nú bara vegna þess að íslenska krónan er svo sterk og við missum bara mjög mikið af okkar tekjum og þurfum að aðlaga okkar rekstur að því,“ segir Steingrímur, spurður um ástæður uppsagnanna.
„Við erum bara svona að draga saman seglin og eftir þessar breytingar verða 75 manns starfandi í Þorlákshöfn,“ segir Steingrímur en fyrirtækið mun fækka línum og minnka framleiðslu meðan krónan er svo sterk.