„Meiri karakter með rófunum“

Fjóla Signý Hannesdóttir með hrekkjavökurófur. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Svokallaðar hrekkjavökurófur njóta vaxandi vinsælda hér á landi og kjósa æ fleiri að skera út rófur í bland við innflutt grasker. 

„Það er klárlega orðið meira um það og vinsælla að skera út rófur fyrir hrekkjavökuna. Þetta er svolítið sport hjá fólki en það er ennþá mjög langt í land miðað við hvað það er mikið skorið út af graskerum,“ segir Fjóla Signý Hannesdóttir, gulrófnabóndi í Stóru-Sandvík, í samtali við sunnlenska.is.

Betra fyrir umhverfið
Fjóla segir að ein helsta ástæðan fyrir því að fólk ætti frekar að skera út rófur en grasker er út frá umhverfissjónarmiðum. „Það er minna kolefnisspor því graskerin eru flutt inn í miklu magni og þurfa að ferðast langa leið til Íslands. Að auki styður fólk við íslenska rófubændur og innlenda framleiðslu með því að skera frekar út rófur en grasker.“ 

„Mér finnst líka verða meiri karakter með rófunum því að ræturnar eru svo ólíkar og hver hrekkjavökurófa verður svo ólík miðað við graskerin, sem eru nánast alltaf eins í lögun,“ segir Fjóla og bætir því við að rófurnar geymist líka aðeins lengur en graskerin.

Hægt að nota innihaldið í kjötsúpu
Hrekkjavökurrófurnar sem eru seldar í búðum eiga það flestar sameiginlegt að vera sérstaklega stórar. „Búðirnar vilja almennt ekki selja svona stórar rófur. Þannig að þetta er líka betri nýting á uppskerunni. Annars eru hrekkjavökurófurnar alveg eins og þær minni.“

Fjóla segir að það sé mjög auðvelt að skera út hrekkjavökurófu og það sé ekki verra ef rófan sé aðeins byrjuð að linast. „Til að auðvelda verkið mæli ég með því að nota borvél með spaðabor á endanum. Þá tætir maður úr rófunni og þá tekur þetta bara um fimm mínútur. Ég held að maður sé ekkert lengur að tæma rófu en grasker. Svo er hægt að nota innihaldið í kjötsúpu eða annað. Fólk gæti jafnvel boðið upp á rófusnakk fyrir þau börn sem vilja eitthvað hollt í staðinn fyrir nammi þegar er gengið í hús,“ segir Fjóla að lokum. 

Hægt er að fá hrekkjavökurófur meðal annars í Nettó á Selfossi.

 

Fyrri greinÁfram ósigraðar á toppnum
Næsta greinFrábær endasprettur skilaði sigri