Menam opnar í mathöllinni

Stína afhenti Andra uppskriftabókina á bökkum Ölfusár. Ljósmynd/Menam

Veitingastaðurinn Menam á Selfossi verður opnaður á nýjan leik í mathöllinni í Mjólkurbúinu í nýja miðbænum á Selfossi. Menam var stofnað árið 1997 af thailenskri fjölskyldu en árið 1999 keypti Kristín Árnadóttir staðinn og rak hann til ársins 2018.

„Við hlökkum mikið til að geta boðið velunnurum okkar í gegnum tíðina upp á vinsælustu thailensku réttina okkar á ný, sem við höfum heyrt að margir hafi hreinlega saknað,“ segir í tilkynningu frá Menam.

„Nýrri staðsetningu mun fylgja nýtt útlit og fyrirkomulag, en maturinn og þjónustan mun byggja á þeim góða grunni sem Menam hefur staðið fyrir í gegnum tíðina. Við munum bjóða upp á rjómann af thailensku réttunum okkar, sem líkt og áður verða eldaðir úr fyrsta flokks hráefni og bornir fram af natni. Þá munum við kynna einhverjar nýjungar þegar fram líða stundir.“

Við keflinu á Menam hefur tekið nýtt fólk en ekki alveg svo ótengt. Andri Már Jónsson mun bera hitann og þungann í rekstrinum en hann starfaði á Menam. Kristín afhenti Andra af því tilefni uppskriftabókina góðu sem hefur að geyma helstu leyndarmálin í matseldinni, þó hann ætti að vera þeim flestum vel kunnugur. Það er síðan aldrei að vita nema að hægt verði að heilsa upp á Stínu sjálfa á básnum á góðum dögum í Mathöllinni.

Stefnt er að opnun mathallarinnar í nýja miðbænum í lok júní.

Fyrri greinÁrborg skoraði þrettán
Næsta greinKemur með demantinn heim á Selfoss