Mengunarslys á borð við það sem átti sér stað í Ytri-Rangá þegar úrgangur úr kjúklingasláturhúsi við Hellu flæddi niður ána á ekki að geta endurtekið sig.
Fram kom í fréttum RÚV í gærkvöldi að í fyrradag hafi verktaki við sláturhús Reykjagarðs verið að tæma fitugildru. Hafi hann lent í vandræðum og dælt meira vatni í gildruna. Á sama tíma hafi starfsmenn verið að grófskola í sláturhúsinu og við það hafi orðið yfirflæði í veitukerfinu.
Flæddi þá úrgangur eins og kjúklingafita og innyfli niður ána þar sem erlendir ferðamenn voru við veiði.
Á mbl.is segist Guðfinna Þorvaldsdóttir, oddviti Rangárþings ytra, hafa fundað í morgun með forsvarsmanni Reykjagarðs og þjónustumiðstöðvar sveitarfélagsins sem sér um veitumál vegna málsins.
„Fyrirtækið hefur brugðist við og sveitarfélagið líka til að fyrirbyggja að þetta geti komið fyrir aftur. Það verður gert með því að Reykjagarður lætur starfsmenn veitustjórnar okkar vita þegar þeir eru að losa hjá sér þannig að þeir geti gert varúðarráðstafanir svo að úrgangurinn geti ekki farið inn í veitukerfið,“ segir Guðfinna á mbl.is.
RÚV hafði eftir Guðmundi Atla Ásgeirssyni, veiðieiðsögumanni, að þetta væri ekki í fyrsta skipti sem óhapp sem þetta kæmi upp á. Það hefði síðast gerst fyrr í þessari viku.
Guðfinna segist hins vegar ekki kannast við að sveitarfélaginu hafi borist tilkynningar um að slíkt hafi gerst áður.