Menningarsalurinn kláraður árið 2022

Menningarsalurinn á Selfossi. Mynd úr safni.

Í fjárlagafrumvarpi ársins 2021, sem kynnt var í morgun, er aukafjárveiting upp á 140,5 milljónir króna til framkvæmda við menningarsalinn á Selfossi.

Gert er ráð fyrir annarri eins upphæð árið 2022 og að framkvæmdum við salinn verði lokið á næstu tveimur árum. Menningarsalurinn í Hótel Selfossi hefur staðið fokheldur í tæp 40 ár.

Að sögn Tómasar Ellerts Tómassonar, formanns framkvæmda- og veitustjórnar Árborgar, skiptist kostnaðurinn við framkvæmdina nokkurn veginn jafnt á milli ríkisins og Sveitarfélagsins Árborgar.

Síðsumars var stofnuð byggingarnefnd um salinn og vinnur hún nú að því að mögulegt sé að bjóða út verkið í upphafi árs 2021.

Framkvæmdirnar eru hluti af fjárfestingarákvæði ríkisstjórnarinnar til að sporna gegn niðursveiflu í efnahagslífinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveirunnar.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, skoðaði salinn í mars í fyrra en bæjarfulltrúar í Árborg hafa verið duglegir við að bjóða ráðamönnum í heimsókn á síðustu misserum, til þess að skoða salinn. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Þrátt fyrir að vera fokheldur hafa nemendur í Fjölbrautaskóla Suðurlands sett upp fjölmargar sýningar í salnum síðustu áratugina. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinÆgir í hörku fallbaráttu
Næsta greinEkki sektað fyrir nagladekk næsta mánuðinn