Fyrsta hlutanum af menningarstúkunum sem Sveitarfélagið Árborg festi kaup á í vetur var komið fyrir á Eyrarbakkavelli í dag.
Sveitarfélagið keypti stúkurnar í vetur eftir tillögu Björns Inga Bjarnasonar, menningarnefndarmanns. Stúkurnar eru smíðaðar í fangelsinu á Litla-Hrauni en um er að ræða þrisvar sinnum 33 trébekki. Verða með þessu til þrjú sett, hvert sett með 99 sætum, samtals 297 sæti.
Hvert sett verður staðsett í byggðakjörnunum þremur; Eyrarbakka, Stokkseyri og Selfossi en hægt verður að færa þau á milli staða eftir því sem þörf er á. Hægt er að nota menningarstúkurnar við hinar ýmsu útisamkomur og mannamót; svo sem við íþróttavellina við ströndina, keppnis- /æfingavelli á Selfossi og á hinum fjölmörgu hverfa- og bæjarhátíðum sem eru í Sveitarfélaginu Árborg. Þá eru ýmsir möguleikar á að nota menningarstúkurnar á samkomum sem eru innandyra.
Áætlaður kostnaður við verkefnið er um 500.000 krónur fyrir hvert sett, samtals um 1,5 milljón króna.
Stúkurnar voru notaðar í fyrsta sinn í kvöld á æfingaleik Knattspyrnufélags Árborgar og Ungmennafélags Álftaness og vöktu þær gríðarlega hrifningu leikmanna og áhorfenda enda hefur áhorfendaaðstaða við völlinn ekki verið til staðar hingað til.