Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, heimsótti Hveragerði í gær. Ásmundur heimsótti meðal annars Grunnskólann í Hveragerði til að kynna sér útikennslu skólans.
Með í för voru bæjarfulltrúar Framsóknar í Hveragerði, þau Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, formaður bæjarráðs og Halldór Benjamín Hreinsson, varaforseti bæjarstjórnar. Hópnum var boðið með 2. bekk upp á pönnukökur í útistofu skólans, Lundi, og mæltist það vel fyrir. Sjálfur sagði Ásmundur Einar að það væri ótrúlega fróðlegt að fá innsýn í fyrirkomulag útikennslu.
Í frétt á vef GíH segir að óhætt sé að fullyrða að útikennsla, það að flytja kennslu að einhverju leyti út fyrir veggi skólans, auðgi og styrki allt nám ásamt því að vera hollt fyrir bæði líkama og sál. Útivist í stundatöflum er í takti við áætlun Grunnskólans í Hveragerði um heilsueflandi grunnskóla en þar kemur m.a. fram markmiðið að flétta heilsu og velferð saman við daglegt skólastarf.
Auk þess að heimsækja grunnskólann heimsótti Ásmundur frístundamiðstöðina Bungubrekka, sem nýverið var tilnefnd til Íslensku menntaverðlaunanna og einnig kannaði hann aðstæður inni í Dal, þar sem nýr gervigrasvöllur mun rísa.