![Arborg-heimsogn-jan-25-3](https://www.sunnlenska.is/wp-content/uploads/2025/01/Arborg-heimsogn-jan-25-3-696x419.jpg)
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra, heimsótti Selfoss í gær en tilgangur heimsóknarinnar var að kynna sér skóla- og frístundastarf í Sveitarfélaginu Árborg.
Fjölbrautaskóli Suðurlands var sóttur heim við góðar móttökur Soffíu Sveinsdóttur skólameistara, ásamt aðstoðarskólameistara og fulltrúum nemendafélagsins. Ráðherra fékk kynningu á skólanum og kynntist starfsfólkinu.
![](https://www.sunnlenska.is/wp-content/uploads/2025/01/Arborg-heimsogn-jan-25-4-Copy-1-1024x805.jpg)
Bragi Bjarnason bæjarstjóri, Heiða Ösp Kristjánsdóttir sviðstjóri fjölskyldusviðs og Gunnar Eysteinn deildastjóri frístundaþjónustu ásamt fleiri starfsmönnum tóku á móti ráðherra í félagsmiðstöðinni Zelsíuz. Þar var starfsemi félagsmiðstöðvarinnar kynnt ásamt þróunarverkefni þeirra, Elju, sem ætlað er að auka félagsvirkni barna og ungmenna.
Þriðji viðkomustaðurinn var á leikskólanum Jötunheimum þar sem Júlíana Tyrfingsdóttir, leikskólastjóri, tók á móti ráðherra, ásamt aðstoðarleikskólastjóra og Heiðu Ösp. Júlíana sagði frá því faglega starfi sem þar er og einnig hvernig þau ná að halda utan um sinn glæsilega starfsmannahóp.
![](https://www.sunnlenska.is/wp-content/uploads/2025/01/Arborg-heimsogn-jan-25-2-Copy-1-1024x734.jpg)