Mensalder kominn úr prentvélinni

Síðastliðinn þriðjudag kom út bókin Mensalder eftir Bjarna Harðarson, rithöfund og bóksala á Selfossi. Útgáfunni verður fagnað í Sunnlenska bókakaffinu kl. 17 í dag.

Bókin Mensalder segir frá kotbónda í Rangárþingi og byggir á raunverulegu lífshlaupi Mensalders Rabens Mensalderssonar í Húsum í Ásahreppi (1888-1980).

Haustið 1933 gengur sögupersónan yfir mýrarsund í Holtunum. Hann er loks farinn frá æskuheimili sínu í Ranakoti til unnustunnar sem hefur beðið í þrjá áratugi. Heima í Ranakoti er allt ósnert og þrisvar á ævinni verður það sjálfvalið hlutskipti Mensalders að yfirgefa heimili sitt tómhentur.

Hér segir frá samferðafólki Mensa. Fóstra hans Margrét Jónsdóttir er göldróttur tveggja álna uppkreistingur ofan af Landi. Vinkona hennar er söngkonan Imba slæpa og saman eru þær ásamt Gunnu í Húsum líkt og vættir þessa lands. Þær eru eldri brunanum úr Heklu og samt ástguðir Mensanna í Ranakoti.

Saga Mensalders teygir sig inn í nútímann og sjálfur verður hann afrak af annarri öld. Unnustan er komin í kuðung og Húsabóndinn keyrir heyi sínu heim í hjólbörum. En hann er skuldlaus hamingjumaður sem veit að miðja heimsins er hvergi frekar en einmitt hjá honum.

Bók þessi er þriðja skáldsaga höfundar en Sigurðar saga fóts (2010) og Svo skal dansa (2009) fengu frábærar viðtökur og góða dóma.

Fyrri greinSelfoss tapaði fyrir Fram
Næsta greinGlænýtt Útsvarslið í Árborg