Söngkonan Anna Hansen frá Leirubakka í Landsveit hefur aldeilis ekki setið með hendur í skauti síðan hún flutti til Danmerkur fyrir um fimmtán árum.
Þessi einstaklega brosmilda og hæfileikaríka söngkona flutti upphaflega til kóngsins Köbenhavn til að læra söng við Complete Vocal Institute, skóla sem margir Íslendingar þekkja vel. Anna fór fljótlega að láta að sér kveða á danskri grundu en hún komst meðal annars í 32 manna úrslit í dönsku sjónvarpsþáttunum Voice árið 2012.
Anna fór síðar sjálf að kenna söng við sama skóla og hún nam við, við góðan orðstír. Kennsluhæfileikar Önnu voru ekki lengi að spyrjast út en hún var meðal annars fengin til að sjá um raddþjálfun í dönsku X-factor þáttunum.
Fyrir tveimur árum var Anna svo fengin til að vera ein af bakröddum dönsku popphljómsveitarinnar Aqua. Eins margir muna sló hljómsveitin rækilega í gegn árið 1997 með laginu sínu Barbie Girl.
Í kjölfar Barbie kvikmyndarinnar hefur sannkalla Barbie-æði gripið um sig um allan heim og af því tilefni fannst blaðamanni sunnlenska.is upplagt að slá á þráðinn til Önnu og heyra hvað hefur á dagana hennar drifið frá síðasta spjalli.
„Það hefur verið nóg að gera síðan síðast. Í byrjun október fékk ég fasta stöðu sem bakrödd í Aqua. Ég hafði verið að leysa af aðeins áður en nú er ég með á öllum tónleikum. Frá áramótum höfum við spilað fullt af tónleikum á allskonar stöðum, bæði hér í Danmörku en svo líka til dæmis í Tel Aviv, Mílanó, Þýskalandi, Prag, á Spáni, í London, New York, Los Angeles, Kanada og fleiri stöðum,“ segir Anna glöð í bragði þegar blaðamaður heyrir í henni.
Með útsýni yfir Niagara Falls
Anna segir að það séu fjölmargar skemmtilegar minningar úr tónleikaferðalaginu. „Norður-Ameríkuferðin í lok júní var ótrúlega skemmtileg. Við vorum í tæpar tvær vikur og náðum að skoða okkur um á stöðunum sem við vorum á, sem var algjör lúxus. New York er alltaf skemmtileg og svo kom ég í fyrsta skipti til Los Angeles sem var gaman að upplifa. Svo er Kanada svo magnað land. Við fórum fyrst til Niagara Falls, þar sem við bjuggum á hóteli með útsýni yfir fossana úr herbergisglugganum og fórum í siglingu að fossunum. Vancouver Island var svo líka alveg geggjuð. Við vorum þar í slökun í nokkra daga í litlum bæ við sjóinn og fórum í siglingu þar sem við sáum hóp af háhyrningum.“
„Við fórum svo aftur til Kanada núna í ágúst þar sem við fengum meðal annars nokkra daga í Vancouver. Vinkona mín úr FSu býr þar og tók okkur með í fjallgöngu sem var skemmtileg upplifun. Magnað útsýni og við sáum brúnbirni á toppnum. Það var geggjað,“ segir Anna og gleðin leynir sér ekki.
Þrátt fyrir að syngja með heimsfrægri hljómsveit hefur Anna ekki orðið vör við það að fólk þekki hana meira á götum úti. „Held að hinn almenni borgari pæli ekki svo mikið í hljómsveitinni á bak við listamennina. Aðal athyglin er á stjörnunum.“
Seldist upp á tónleikana örskotsstundu
Vinsældir Barbie kvikmyndarinnar hefur heldur betur haft áhrif á velgengni Aqua og hefur selst upp á örskammri stundu á tónleika þeirra í Bandaríkjunum.
„Frá því að myndin var auglýst hefur Barbie Girl fengið mjög aukna spilun bæði á streymisveitum en líka á vídeóum á samfélagsmiðlum. Þetta varð svo líka til þess að þau ákváðu að láta reyna á að setja upp tónleika í Bandaríkjunum, í fyrsta skipti í mörg ár og það seldist upp á örskotsstundu bæði í New York og Los Angeles.“
„Við erum svo á leiðinni til Chile núna í október í eina viku og svo 5-6 vikna tónleikaferð um öll Bandaríkin í nóvember og desember. Við munum búa í tveimur hljómsveitarrútum með kojum, fljúgum til Seattle og keyrum svo þaðan. Fyrst niður vesturströndina, þaðan áfram, meðal annars til Texas og Flórída og endum svo í Las Vegas og Los Angeles korter fyrir jól,“ segir Anna, sem er full tilhlökkunar yfir komandi tónleikaferðalagi.
Skemmtilegur og þéttur hópur
En hvernig er það að vera svona mikið á ferðalagi og lítið heima hjá sér – er það aldrei erfitt? „Enn sem komið er finnst mér þetta alveg ótrúlega gaman! Við erum ótrúlega skemmtilegur hópur og náum vel saman, þannig að við skemmtum okkur yfirleitt alveg konunglega. Við erum ansi stórt teymi, þau eru þrjú sem eru Aqua; Lene, René og Søren, og svo erum við fimm í hljómsveitinni og á bakvið tjöldin eru tæknimenn, hár- og förðunarfræðingur, stílisti, framkvæmdastjóri og fleiri sem gera að verkum að allt er eins og það á að vera, þannig að oft erum við alveg 15-20 manns sem ferðumst saman.“
„Auðvitað getur það verið smá álag, oft eru þetta langar vegalengdir sem við fljúgum og í gegnum mörg mismunandi tímabelti, þannig svefninn ruglast svolítið, og svo getur það alveg verið erfitt að vera alltaf með fólk í kringum sig, ég tala nú ekki um þegar við komum til með að búa í rútum! En við erum góð í því að gefa fólki frið ef maður þarf á smá hvíld að halda og það móðgast enginn ef maður setur á sig heyrnartól og dregur sig aðeins í hlé. Það er alveg nauðsynlegt til að hlaða batteríin inn á milli.“
Þakklát fyrir tækifærið
Anna er vön að syngja fyrir framan mörg þúsund manns og finnst það ekkert mál.
„Stærsta giggið var 55 þúsund í Þýskalandi á We love the 90’s partíi. Annars eru allt frá þrjú þúsund upp í 10-15 þúsund á tónleikum hjá okkur – svona yfirleitt. Grøn Koncert tónleikaröðin var sirka 15-16 þúsund á hverjum tónleikum. Ég fæ stundum sviðsskrekk þegar ég syng í kirkjuathöfnum, ef ég næ að hugsa að ég megi ekki klúðra neinu í brúðkaupi eða jarðaför. En þegar ég er að syngja með hljómsveit þá er ég ekkert stressuð. Bara spennt.“
Tónleikarnir sem Anna hefur sungið með Aqua nálgast fjörutíu talsins. „Svo bætist Bandaríkjaferðin við í vetur þar sem við spilum um tuttugu tónleika, þannig það bætist sífellt við. Mér finnst ég ansi heppin að fá að upplifa þetta ævintýri og heimsækja alla þessa staði og sjá heiminn og er ótrúlega þakklát fyrir þetta tækifæri!“ segir Anna og það er augljóst að hún meinar hvert orð af öllu hjarta.
Vinnur að sinni eigin tónlist
Um þessar mundir er Anna stödd heima hjá sér í Kaupmannahöfn, eða á meðan það er hlé á tónleikaferðalaginu. En það er ekki eins og Anna láti sér leiðast á meðan – síður en svo.
„Núna er smá hlé þangað til við förum til Chile og svo til Bandaríkjanna og ég er meðal annars að kenna söng í Complete Vocal Institute. Svo er ég að syngja í brúðkaupum, jarðarförum og á „balli“ í fyrirtækjapartýjum.“
„Ég er líka enn að vinna í minni eigin tónlist, sem ég hlakka til að geta einbeitt mér betur að. Ég var í Nashville í vor þar sem ég samdi fleiri lög sem ég er ótrúlega spennt fyrir, þannig næsta skref er að fara í stúdíó og svo gefa út lögin. Ég er líka að skipuleggja tónleikaröð á Íslandi vonandi næsta vor sem ég er mjög spennt fyrir, í samstarfi við flott tónlistarfólk frá Nashville,“ segir Anna kát að lokum.