Mest lesnu fréttir ársins 2014

Í mest lesnu fréttum ársins 2014 á sunnlenska.is kennir ýmissa grasa. Mest lesna frétt ársins er af bifreið sem hvarf ofan í Ölfusá en ökumaður hennar bjargaðist á undraverðan hátt.

1. Leitað að bíl í Ölfusá
Gríðarmikill viðbúnaður var á og við Ölfusá fimmtudagskvöldið 13. nóvember eftir að bifreið sást fara í ánna. Leitað var fram á nótt að ökumanni bifreiðarinnar sem fannst svo morguninn eftir heill á húfi, en hann hafði komist á land og leitað skjóls í vélgröfu á geymslusvæði Borgarverks neðan við Selfoss.

2. Bílstjórinn slapp án meiðsla
Veður og færð voru mikið í fréttum á þorra, góu og ýli. Fjallvegum iðulega lokað og ökumenn víða í vanda. Þann 8. mars fauk rúta útaf Þjórsárdalsvegi fyrir neðan Þrándarholt en bílstjórinn, sem var einn á ferð, slapp án meiðsla – enda var hann í öryggisbelti.

3. Nýr 716 fermetra veitingasalur
Mikil uppbygging hefur verið hjá Ólafi Laufdal á Grímsborgum í Grímsnesi en hann reisti á árinu glæsilegan 716 fermetra veitingasal. Auk þess var gistirýmum fjölgað og þar er nú boðið upp á gistingu fyrir 120 manns.

4. Undrast framlag til Ingólfs
Í febrúar bókuðu bæjarfulltrúar S-listans í Árborg undrun sína eftir að sveitarfélagið hafði óumbeðið fengið fimm milljón króna styrk til þess að gera sökkul undir húsið Ingólf og flytja það á sinn stað í miðbæ Selfoss. Það voru reyndar fleiri en Arna og Eggert undrandi á þessu en enn hafa engar skýringar hafa borist frá forsætisráðuneytinu – og ekkert sést ennþá af sökklinum.

5. Helga kaupir Lifandi hús
Í ágúst festi Helga Dóra Gunnarsdóttir, einkaþjálfari á Selfossi, kaup á heilsuræktinni Lifandi hús á Selfossi. Þar er hægt að stunda boddýrokk, tabata, pilates og margt fleira – auk trampólínfitness sem sló í gegn á árinu.

6. Framkvæma fyrir milljarð
Mikil uppbygging er framundan í ferðaþjónustu á Hvolsvelli en í apríl greindi Sunnlenska frá því að skyndibitakóngarnir Skúli á Subway og Simmi á Hamborgarafabrikkunni stefndu að því að reisa eldfjalla- og náttúrusetur í Naflanum. Stefnt er að opnun vorið 2016.

7. Snarpur jarðskjálfti á Suðurlandi
Snarpur jarðskjálfti fannst víða á Suðurlandi kl. 23:14 þann 8. maí, á afmælisdegi Magnúsar Tuma, jarðeðlisfræðings. Skjálftinn reyndist 3,9 að stærð með upptök norðan Gíslholtsfjalls á austurbakka Þjórsár. „Vænn hristingur,“ sagði Íbí í Hnakkholti.

8. Kaffi krús bauð best
Fannar og Tommi á Kaffi krús á Selfossi eru þekktir fyrir bæði útlitið og góðmennskuna. Þeir buðu best þegar dagatal sjúkraflutningamanna var selt á uppboði í byrjun janúar. Upphæðin sem safnaðist á uppboðinu skiptist á milli fjölskyldna langveikra barna á Suðurlandi.

9. „Alltaf sama djöfulsins ruglið í ykkur löggunum“
Einn af mönnum ársins er náunginn sem hringdi í Selfosslögguna 8. mars eftir að Hellisheiðinni hafði verið lokað vegna veðurs. Sá hafði ekið fram á nýtt lokunarhlið við hringtorgið hjá Hveragerði og var brjálaður yfir því að komast ekki í bíó í Reykjavík. Hver á að endurgreiða honum bíómiðana? Á ég að gera það?!?!

10. Sunnlendingur á meðal þátttakenda í The Biggest Loser Ísland
Sunnlenska.is og Sunnlendingar allir fylgdust vel með Jónasi Pálmari Björnssyni sem tók þátt í sjónvarpsþáttunum „The Biggest Loser Ísland“. Jónas Pálmar náði frábærum árangri og sigraði í heimakeppni þáttanna en hann missti 48,5 kíló, eða 34,6% af upphaflegri líkamsþyngd sinni.

ÞVOTTAVÉLIN SLÓ Í GEGN
Mest lesna greinin á sunnlenska.is á þessu ári var hins vegar á Fagurgerði. Pistillinn vakti verðskuldaða athygli og er langmest lesna greinin á sunnlenska.is frá upphafi.

Ert þú að nota þvottavélina þína rétt?
Jóhanna skrifaði pistil í maí þar sem hún ráðlagði húsmæðrum og -feðrum að þvo fötin sjaldnar, sleppa þvottaefninu og þvo á lægri hita.

Fyrri greinHanna í úrvalsliði haustsins
Næsta greinÞrír framkvæmdastjórar ráðnir á HSu