Nú árið er alveg að verða liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka. Meðal mest lesnu frétta ársins voru fréttir af jarðhræringum, eldsvoðum, mótmælum, söngstjörnum og skólastjórum, svo eitthvað sé nefnt.
1. Snarpur skjálfti fannst víða á Suðurlandi
Öflugur jarðskjálfti, sem átti upptök sín í Sortanum norðan við Bollastaði í Flóahreppi, fannst víða á Suðurlandi að kvöldi 20. október. Á bæjum í Flóahreppi skekktust myndir á veggjum, hlutir féllu í gólfið og færðust til í skápum. Skjálftahrinan hófst síðdegis þennan dag og fundu margir minni skjálfta áður en sá stærsti reið yfir en hann reyndist vera af stærðinni 4,1.
2. BFÁ fékk bát að gjöf
Í maí fékk Björgunarfélag Árborgar afhentan nýjan slöngubát en báturinn var gjöf frá aðstandendum Guðmundar Geirs Sveinssonar. Báturinn fékk nafnið Guðmundur Geir og hann hefur þegar komið að góðum notum því Björgunarfélag Árborgar var kallað tvívegis út á þessu ári eftir að menn höfðu lent í ánni.
3. Eldur í reykháf á Kaffi Krús
Snarræði gesta kom í veg fyrir að verr færi þegar eldur kom upp í reykháfi utan á veitingastaðnum vinsæla Kaffi Krús á Selfossi að kvöldi 1. apríl. Staðurinn var þéttsetinn að vanda og að sögn viðbragðsaðila gekk vel að rýma hann og engum varð meint af.
4. „Gerum okkar besta til þess að allir fari ánægðir út“
Kaffi Selfoss opnaði aftur í júní eftir gagngerar breytingar á staðnum. „Viðtökurnar hafa verið frábærar,“ sagði Bjarmi Skarphéðinsson, framkvæmdastjóri Kaffi Selfoss, í samtali við sunnlenska.is. „Fólk virðist ánægt með það sem er í boði og við gerum okkar besta til þess að allir fari ánægðir út.“
5. Íbúar mótmæltu umferðarþunga á Tryggvagötunni
Nokkrir íbúar við Tryggvagötu á Selfossi tóku sig saman í apríl og mótmæltu því að umferð um bæinn væri beint um götuna á meðan framkvæmdir við gatnamót Kirkjuvegar og Eyravegar stóðu yfir. Þetta hægði töluvert á umferðinni og var hiti í nokkrum ökumönnum á tímabili.
6. „Þetta eru mjög miklar tilfinningar“
Karitas Harpa Davíðsdóttir frá Selfossi stóð uppi sem sigurvegari í söngvarakeppninni The Voice Ísland á Sjónvarpi Símans í febrúar. Í viðtali við sunnlenska.is fyrir undanúrslit keppninnar sagði Karitas að keppnin hafi verið þvílíkur skóli fyrir sig en hún væri sjálf sinn harðasti gagnrýnandi.
7. – „Ég er bara Daði“
Daði Freyr Pétursson frá Vörðuholti í Ásahreppi sló í gegn á einni nóttu í Söngvakeppni Sjónvarpsins ásamt hljómsveitinni Gagnamagninu með lagið Is This Love? Í viðtali við sunnlenska.is að lokinni úrslitakeppninni í mars sagði Daði að Júró-ævintýrið hefði verið alveg ótrúlegt og hann hefði ekki getað beðið um meira út úr keppninni.
8. „Stækkar vissulega markhópinn“
„Við höfum alltaf fengið rosalega margar fyrirspurnir um að framleiða vörurnar okkar í fullorðinsstærðum. Við ákváðum að prófa að gera nokkrar peysur á fullorðna og þær vöktu mikla lukku,“ sagði Fanney Svansdóttir í samtali við sunnlenska.is í janúar en prjónaflíkur sem hún hannar undir merkinu Ylur hafa notið mikilla vinsælda.
9. Önnu Gretu sagt upp í Flóaskóla
Uppsögn Önnu Gretu Ólafsdóttur, skólastjóra Flóaskóla, í lok apríl vakti mikla athygli og olli deilum í Flóahreppi á árinu. Anna Greta sagði uppsögnina eins ólöglega og hugsast mætti og nokkrir kennarar sögðu upp störfum við skólann eftir að henni var sagt upp. Fimm mánuðum síðar bókaði sveitarstjórn að hreppurinn og Anna Greta hefðu gert með sér samkomulag um starfslok hennar og að málinu væri lokið.
10. „ML getur ekki án íþróttahússins verið“
Laugdælir höfðu miklar áhyggjur af lokun íþróttahússins og sundlaugarinnar á Laugarvatni á árinu. Í apríl bókaði skólanefnd Menntaskólans að Laugarvatni að ML gæti ekki án íþróttahússins verið. Í maí gerðu svo fimm nemendur við skólann áhugavert myndband um stöðu íþróttahússins á Laugarvatni og sögðu að þetta væri óásættanleg staða fyrir samfélagið. Málið leystist farsællega en sveitarfélagið eignaðist mannvirkin í ágúst.