Umferð jókst lítillega á Suðurlandi í fyrra eða um 0,9% á milli ára. Umferð dróst í heildina saman á hringveginum öllum, samkvæmt tölum Vegagerðarinnar.
Þróun umferðar á milli ára á Suðurlandi er nokkuð breytileg þar sem aukningin er fyrst og fremst á svæðinu vestan Hvolsvallar að Mýrdalssandi. Aðeins í janúar í fyrra var umferðin minni en í sama mánuði árið áður á veginum vestan Hvolsvallar en talsverðar sveiflur voru hinsvegar í umferðinni um Hellisheiði og um Mýrdalssand á milli tímabilanna sem borin eru saman.
Heldur dró úr umferð um Hellisheiði í allt haust miðað við sama tíma árið 2011, en aukning varð þó í desember skv. spátölum Vegagerðarinnar. Veður og færð haldast í hendur við umferðina þar sem ljóst er að færð var betri í desember 2012 en í sama mánuði árið áður og umferðin í janú-ar 2012 var mjög í anda þess veðurs sem þá geisaði en tölur sýna verulegan samdrátt í umferðinni þá miðað við janúarmánuð 2011.
Sveinn Kristján Rúnarsson yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Hvolsvelli segir þetta mjög í anda þess sem lögreglan skynji á viðkomandi svæði. „Við finnum gríðarlegan mun, einkanlega vegna Landeyjarhafnar,” segir Sveinn. Þá séu fleiri ferðamenn á akstri um þetta svæði. „Við erum t.a.m. að sjá aftur fjölgun umferðarlagabrota,“ segir Sveinn, en erlendir ferðamenn eru meira en helmingur allra þeirra sem stöðvaðir eru fyrir hraðaakstur á svæði lögreglunnar á Hvolsvelli yfir sumartímann. „Það er svipað hlutfall og verið hefur,“ segir Sveinn.
Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu