Enn eitt aðsóknarmetið að menntun í fangelsum var slegið á nýliðinni haustönn í Fjölbrautaskóla Suðurlands. Alls innrituðust 68 fangar í nám á Litla-Hrauni og Sogni.
Þar af voru fjórir í háskólanámi, en hinir 64 voru skráðir í nám á vegum FSu.
Eins og jafnan áður voru nemendur að koma og fara á önninni, en alls entust samtals 48 FSu-nemendanna út önnina. Þeir voru upphaflega skráðir í 164 áfanga og lágu 353 einingar undir en í lok annarinnar skiluðu sér aðeins 142 einingar alla leið, eða rúm 40%.
Samtals sinntu fjórir kennarar frá FSu staðbundinni kennslu á Sogni auk þess sem kennslustjórinn í fangelsunum báðum Ingi S. Ingason og Anna Fríða Bjarnadóttir, náms- og starfsráðgjafi í fangelsum, komu þangað einu sinni í viku sinn daginn hvort.
Á Litla-Hrauni sinntu sex kennarar við FSu staðbundinni kennslu auk kennslustjóra, en þar hefur náms- og starfsráðgjafi einnig sína starfsaðstöðu.
Auk ofangreindra komu sjö FSu-kennarar að fjarnámi í samtals sautján áföngum í fangelsunum báðum.
Þetta kom fram í annarannál Þórarins Ingólfssonar, aðstoðarskólameistara, við brautskráningu síðastliðinn föstudag.