Að sögn Jóns Páls Kristóferssonar, rekstrarstjóra Ramma hf. í Þorlákshöfn, skiluðu bátar félagsins metverðmætum og góðum afla í fyrra.
Einnig gekk fiskvinnsla félagsins mjög vel sem fyrst og síðast er mjög hæfu starfsfólki vinnslunnar að þakka að sögn Jóns Páls.
Rammi gerir út tvo báta frá Þorlákshöfn; Jón á Hofi sem veiddi 1.396 tonn á síðasta ári og var aflaverðmætið 418,2 milljónir króna og Fróða II sem veiddi 986 tonn og var aflaverðmæti 330,6 milljónir króna.
Báðir bátarnir voru að veiða humar, bolfisk og flatfisk en að sögn Jóns Páls gengu humarveiðar vel, flatfiskveiðar frekar illa en bolfiskveiðin hefur verið að aukast jafnt og þétt. Auk þessara tveggja báta þá var Múlaberg SI 22 við veiðar frá Þorlákshöfn í tvo mánuði á síðasta ári og verður það líklegast svipað í ár. Hjá Ramma í Þorlákshöfn vinna nú um 70 manns á sjó og í landi.