Meters djúpt vatn uppgötvaðist í kjallara heilsugæslunnar við Breiðumörk í Hveragerði síðdegis í dag og er nú unnið að því að dæla því út úr húsinu.
Útsláttur hafði orðið í vatnsdælum í brunni í kjallaranum og því flæddi grunnvatn um allan kjallarann. Þegar að var komið var vatnsdýptin um einn metri.
Slökkviliðið í Hveragerði, starfsmenn vatnstjon.is, liðsmenn Hjálparsveitar skáta í Hveragerði og starfsmenn áhaldahússins vinna nú að því að dæla vatninu út úr húsinu með stórvirkum dælum.
Engin starfsemi er í kjallara hússins sem auk heilsugæslunnar hýsir apótek og félagsaðstöðu eldri borgara. Óvíst er hversu miklar skemmdir hafa orðið vegna þessa en vatn barst meðal annars í lyftuhús.