Þúsundir gesta sóttu Blómstrandi daga í Hveragerði um helgina. Þar laðar ísdagur Kjörís flesta að og hefur mannfjöldinn þar aldrei verið eins mikill og í ár.
Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri, segir að þó það sé með öllu ómögulegt að leggja mat á það hversu margir heimsóttu Hveragerði þessa helgi þá er ljóst að gestirnir skiptu þúsundum. „Því miður gekk umferð hægt um Hellisheiði og Kamba um miðjan dag á laugardag því mikil örtröð myndaðist inn til bæjarins. Öll bílastæði voru full, lagt var í húsagötum og á öllum auðum svæðum í og við miðbæinn og iðandi mannlífið út um allan bæ bar merki þess að gestir bæjarins kunnu vel að meta það fjölmarga sem hátíðin hafði uppá að bjóða,“ segir Aldís.
En eins og alltaf var brekkusöngurinn og flugeldasýningin hápunktur helgarinnar. Blankalogn, heiður himinn og aldrei meiri mannfjöldi gerði að verkum að bæði söngur og drunur frá flugeldum bárust vel í kvöldkyrrðinni. Sjónarspil flugeldanna á kvöldhimninum vakti aðdáun en Hjálparsveit skáta í Hveragerði á heiðurinn af sýninguna.
Hvergerðingar vilja að lokinni þessari fjölmennu og góðu helgi senda sínar bestu þakkir til þeirra fjölmörgu sem lögðu sitt af mörkum til að Blómstrandi dagar tækjust jafn vel og raun varð. Gestum þakka þeir komuna og vonast til að sjá þá alla að ári en Blómstrandi dagar verða haldnir dagana 14.-17. ágúst 2014.