Aldrei hafa fleiri lagt leið sína í Hveragarðinn í Hveragerði en á þessu ári og eru heimsóknir ársins 2023 komnar upp í 25.852 gesti á tímabilinu janúar til október.
Gestirnir koma ýmist í hópum eða á eigin vegum en alls hafa 309 hópar bókað heimsóknir á árinu í misjafnlega stórum hópum, allt frá 12 manns upp í 90. Stærstu hóparnir koma frá skemmtiferðaskipum. Þeir greiða aðgangseyri í garðinn og stoppa stutt við.
Aðrir koma gjarnan í meiri dagskrá og er vinsælast að gæða sér á nýbökuðu rúgbrauði sem bakað er í gufunni í Hveragarðinum. Þær heimsóknir vekja alltaf mikla lukku meðal gesta.
Fyrra heimsóknamet er frá árinu 2017 en þá voru gestir garðsins 21.759 talsins svo þetta er heilmikil bæting á metinu.
Vegna fjölda heimsókna er nú stefnt að því að hafa garðinn opinn út nóvember og jafnvel eitthvað inn í desember.