Lögreglan á Suðurlandi kærði 28 ökumenn fyrir of hraðan akstur í umdæminu í gær. Alls hefur lögreglan kært 2.356 ökumenn fyrir hraðakstur það sem af er ári.
Það er meiri fjöldi en allt árið í fyrra og reyndar hefur lögreglan á Suðurlandi ekki náð þessari tölu á heilu ári frá því embættið var sett á laggirnar árið 2015.
Þá voru þrír einstaklingar í sama bílnum kærðir fyrir að nota ekki öryggisbelti og tveir ökumenn voru kærðir fyrir að nota ekki ökuritaskífu í þá bíla sem þeir óku.
Einnig var ökumanni 50 manna rútu gert að hætta akstri þar sem hann var með útrunnið ökuskírteini.
Lögreglan fjarlægði einnig skráningarnúmer af þremur ökutækjum sem ýmist voru ótryggðar eða komnar fram yfir alla fresti á lögbundinni aðalskoðun.