Alls var 95 kaupsamningum um fasteignir á Suðurlandi þinglýst í nýliðnum marsmánuði.
Þar af voru 24 samningar um eignir í fjölbýli, 54 samningar um eignir í sérbýli og 17 samningar um annars konar eignir. Heildarveltan var tæplega 3,3 milljarðar króna og meðalupphæð á samning 34,6 milljónir króna.
Um algjöra metveltu er að ræða í marsmánuði en til samanburðar má nefna að heildarveltan er um það bil 1,2 milljörðum króna hærri en í mars í fyrra.
Af þessum 95 voru 72 samningar um eignir á Selfossi, í Hveragerði og Ölfusi. Þar af voru 22 samningar um eignir í fjölbýli, 43 samningar um eignir í sérbýli og 7 samningar um annars konar eignir. Heildarveltan á Árborgarsvæðinu var tæplega 2,7 milljarðar króna og meðalupphæð á samning 37,2 milljónir króna.
Heildarveltan á Árborgarsvæðinu hefur aldrei verið meiri í marsmánuði en í fyrra var hún rúmlega 1 milljarður króna.
Þjóðskrá Íslands vekur athygli á að meðalupphæð kaupsamnings er ekki hægt að túlka sem meðalverð eigna og þar með sem vísbendingu um verðþróun. Þetta er vegna þess að hver kaupsamningur getur verið um fleiri en eina eign auk þess sem eignir eru misstórar, misgamlar o.s.frv.