Fyrsta samfélagsviðurkenning Rangárþings eystra var afhent á Kjötsúpuhátíðinni á Hvolsvelli um síðustu helgi. Leitað var eftir tilnefningu frá íbúum en viðurkenningin er veitt einstaklingi, fyrirtæki, stofnun eða félagasamtökum í sveitarfélaginu sem þykir standa sig afburða vel í að efla samfélagið og láta gott af sér leiða.
Það var Midgard sem hlaut viðurkenninguna að þessu sinni en eigendur og starfsfólk fyrirtækisins hafa unnið ötullega að því að koma Rangárþingi eystra á kortið sem ákjósanlegur ferðamannastaður, bjóða upp á fjölbreyttar ferðir, frábæra gistiaðstöðu og skemmtilega stemningu fyrir sína gesti. Þau einblína á að efla sjálfbærni, vinna að umhverfisvernd og eru frábær fyrirmynd fyrir ferðaþjónustuaðila.
Í greinargerð með valinu segir einnig að þau hjá Midgard hafi unnið ötullega að er að bæta samfélagið á hvern veg sem þau geta. Midgard er einn af vinsælustu tónleikastöðum landsbyggðarinnar og hafa flestir af þekktustu og vinsælustu tónlistarmönnum landsins verið með tónleika þar. Midgard teymið er ekki síður duglegt að efla tónlistarlífið í heimabyggð, bjóða upp á tónleika eða aðra viðburði þar sem íbúar sveitarfélagsins koma fram.
Christiane L. Bahner, formaður Markaðs- og menningarnefndar, afhenti Midgards hópnum verðlaunin á Kjötsúpuhátíð og þau Ólöf Bergrós Jónasdóttir og Valur Freyr Stefánsson, hjálpuðu til við afhendinguna.