Eldur kom upp í mannlausri íbúð á neðri hæð í tveggja hæða íbúðarhúsi við Birkivelli á Selfossi í morgun. Slökkvistarf gekk vel en miklar skemmdir urðu á neðri hæð hússins.
Slökkvilið Brunavarna Árnessýslu á Selfossi var kallað út klukkan 6:15 í morgun en íbúar á efri hæð hússins höfðu þá tilkynnt um reyk frá íbúðinni á neðri hæðinni. Fólkið á efri hæðinni komst ómeitt út.
Að sögn lögreglunnar á Selfossi gekk vel að ráða niðurlögum eldsins en miklar skemmdir urðu á neðri hæð hússins og reykskemmdir á efri hæðinni.
Eldsupptök eru ekki ljós en rannsóknardeild lögreglunnar á Selfossi rannsakar málið og nýtur við það liðsinni tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.