Tilkynnt var um eld í garðyrkjustöð í Hveragerði rétt fyrir klukkan tíu í gærkvöldi. Um er að ræða 3000 fermetra garðyrkjustöð þar sem ræktaðar eru rósir undir raflýsingu.
Er slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu komu á staðinn var ljóst að þarna yrði umtalsvert tjón. Eldur logaði í tengibygginu í miðri garðyrkjustöðinni og voru öll gróðurhúsin full af reyk. Talsverðan tíma tók fyrir slökkviliðsmenn að ráða niðurlögum eldsins þar sem erfitt var að komast að rótum hans.
Ljóst er að miklar skemmdir hafa orðið á rafbúnaði garðyrkjustöðvarinnar og má gera ráð fyrir því að ræktunartjón verði allnokkuð þó ekki sé hægt að fullyrða um það á þessari stundu.
Slökkviliðsmenn frá slökkvistöðvum Brunavarna Árnessýslu í Hveragerði og Selfossi unnu við slökkvistörf og var slökkvistarfi var lokið um klukkan hálfeitt í nótt.