Heilbrigðisstofnun Suðurlands hefur verið undir miklu álagi í sumar og hefur vaxandi útbreiðsla COVID-19 síðustu vikur haft áhrif á starfsemi bráðamóttöku, heilsugæslu og legudeilda.
Þá hefur fjöldi ferðamanna jafnframt aukið álagið þar sem komum á bráðamóttökuna á Selfossi fjölgar stöðugt, auk þess sem talsverð aukning er á sjúkraflutningum.
Þetta kemur fram í pistli Díönu Óskarsdóttur, forstjóra HSU, á heimasíðu stofnunarinnar.
„Í ár gekk því miður erfiðlega að manna í sumarafleysingar og því er víða undirmannað hjá okkur. Álag síðustu ára er greinilega að skila sér og starfsfólk er orðið langþreytt og treystir sér ekki til að taka allar þær aukavaktir sem verða til við þessar aðstæður,“ segir Díana og bætir við að þessi staða hafi því miður þau áhrif að álagið á starfsfólkið verður enn meira fyrir vikið.
„Við höfum eins og hægt er reynt að forðast það að kalla starfsfólk okkar inn úr sumarleyfum, þar sem afar mikilvægt er að starfsfólkið fari í sumarleyfi og fái tækifæri til að hvíla sig og safna orku fyrir komandi misseri,“ segir Díana ennfremur.