Nokkur gosmóða er nú suðvestanlands og á Suðurlandi. Gosmóðan lítur út eins og þokuloft og dregur úr skyggni.
Loftgæðin eru verst á mælinum í Reykholti í Biskupstungum, þar sem aðstæður eru óhollar fyrir viðkvæma.
Í tilkynningu frá Umhverfisstofnun segir að gosmóða sé frábrugðin SO2 gasmengun frá eldgosinu. Gastegundin SO2 losnar í miklum mæli frá eldgosinu og mælist á SO2 gasmælum sem eru víða á SV landi. Gosmóða er hins vega gosmökkur sem er nokkura daga gamall og er núna að koma utan að hafi úr suðaustri.
Gastegundin hefur nú að stærstum hluta hvarfast yfir í SO4 agnir sem eru þá ekki lengur gas heldur mjög fínt svifryk. Þar sem SO4 eru agnir mælast þær ekki á SO2 gasmælum heldur eingöngu á svifryksmælum.
Núna í morgun hafa mælst hækkuð gildi á fínu svifryki víða suðvestanlands. Þessar agnir geta verið ertandi fyrir þá sem eru viðkvæmir fyrir. Fólk sem eru viðkvæmt fyrir ætti að forðast óþarfa áreynslu utandyra meðan þetta ástand varir.
Nánar upplýsingar má sjá á vefsíðunni loftgæði.is