Slökkvistarfi í Hoftúni II í Stokkseyrarhreppi lauk á níunda tímanum í kvöld en altjón varð þar á vélaskemmu í eldsvoða í dag.
Neyðarlínan fékk boð um eldinn kl. 17:15 og þegar slökkviliðsmenn frá Selfossi komu á vettvang var byggingin, sem er um 200 fm, alelda. Enginn var inni í skemmunni þegar eldurinn kviknaði en mikill eldur gaus upp á mjög skömmum tíma.
„Við erum að ganga frá þarna núna, það var snemma ljóst að það væri altjón á húsinu en inni í henni voru ýmis tæki og bílar og mikill eldsmatur,“ sagði Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri, í samtali við sunnlenska.is í kvöld.
Einhverjar skemmdir urðu einnig á tækjum og bílum sem stóðu uppvið skemmuna.
Upptök eldsins liggja ekki fyrir en þau eru til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurlandi.


