Mikið tjón í garðyrkjuskólanum – Hjálparsveitin þurfti að snúa frá

Björgunarsveitarfólk á ferðinni. Mynd úr safni. Ljósmynd/Björgunarfélag Árborgar

Mjög mikið annríki hefur verið hjá björgunarsveitum í Árnessýslu í kvöld og fjöldi útkalla borist.

Að sögn Viðars Arasonar í aðgerðastjórn í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi hafa útköllin verið um alla sýsluna en flest þeirra á Selfossi og í Hveragerði. Í sumum verkefnanna hefur beinlínis verið hættulegt fyrir björgunarsveitarfólk að athafna sig og það því þurft að snúa frá.

Til dæmis hefur orðið mikið tjón í garðyrkjuskólanum á Reykjum í Ölfusi þar sem þak er að fjúka af aðalbyggingunni. Þangað fóru liðsmenn Hjálparsveitar skáta í Hveragerði ásamt liðsmönnum Brunavarna Árnessýslu í Hveragerði. Hópurinn gat hins vegar ekkert aðhafst þar sem aðstæður voru of hættulegar og ekki ráð að hætta mannskap í þetta verkefni.

Bílstjórar sjá ekki út úr augum
Blindhríð og ófærð er á vegum í uppsveitum Árnessýslu og til að mynda tók langan tíma fyrir björgunarsveitarbíla að koma ökumanni til hjálpar á Laugarvatnsvegi. Þar var bíll fastur og vélarvana og ökumaðurinn búinn að bíða lengi í kuldanum. Björgunarsveitarbílar festu sig á leiðinni og bílstjórarnir sáu ekki út úr augum. Manninum var komið til hjálpar á ellefta tímanum í kvöld.

Nokkrir gista á Borg
Fjöldahjálparstöð Rauða krossins á Selfossi hefur verið lokað þar sem allir sem þar voru komust í gistingu. Ennþá er opið á Borg í Grímsnesi og þar hafa nokkrir fengið húsaskjól og munu gista þar í nótt.

Ennþá rafmagnslaust í Sandvíkurhreppi
Ennþá er rafmagnslaust í Sandvíkurhreppi frá Selfossi að Votmúla, Tjarnarbyggð, Sandvík, Kaldaðarnesi, flugvelli og Björk. Verið er að leita að bilun við mjög slæm skilyrði. Þeir sem hafa einhverjar upplýsingar sem gætu hjálpað við bilanaleit eru beðnir um að hafa samband við Svæðisvakt RARIK Suðurlandi í síma 528 9890.

Lokað fyrir austan Hvolsvöll
Búið er að loka Suðurlandsvegi milli Hvolsvallar og Víkur, eins og til stóð kl. 22:00. Veðrið er nú að færast austur á bóginn. Suðurstrandarvegi hefur einnig verið lokað og eru björgunarsveitarmenn úr Grindavík að aðstoða ökumenn þar.

Fyrri greinRafmagnslaust í Sandvíkurhreppi
Næsta greinEnnþá erill hjá björgunarsveitum – 52 m/sek hviða undir Ingólfsfjalli