Skráning í Menntaskólann að Laugarvatni á komandi vetri gekk vel og voru umsóknir fleiri en skólinn hafði tök á að taka við.
„Innritaðir eru 54 nemendur inn á fyrsta ár en viðmiðið er að vera með 26 í hvorum bekknum, á náttúrufræðabraut og félagsfræðabraut, þannig að um „yfirbókun“ er að ræða,“ sagði Halldór Páll Halldórsson, skólameistari, í samtali við sunnlenska.is.
Nokkrir nýir nemendur, með framhaldsskólanám að baki í öðrum skólum, sóttu um mat inn á efri ár og fengu inni.
Nemendafjöldinn næsta vetur er rúmlega 170 sem er það hámark sem skólinn og heimavistir hans rúma. Halldór Páll segir mjög ánægjulegt hvað aðsókn að skólanum er jöfn og mikil sérhvert ár.
Þorri nemenda sem í skólanum eru, eða um 80 % er af Suðurlandi.