„Þeir vinna þetta eins og berserkir og hamast áfram,“ segir Guðmundur Ingi Ingason sem hefur umsjón með hreinsunarátaki Vinnumálastofnunar í Vestur-Skaftafellssýslu.
Mikil ánægja er með hópinn sem fer á milli bæja og hreinsar ösku af húsum og úr görðum. „Í síðustu viku hreinsuðu þeir 13 kílómetra langa ræmur af plasti yfir gulrótaræktuninni í Pétursey sem hafði fallið niður undan öskunni. Það var mikið verk og reddaði sjálfsagt uppskerunni þetta árið,” segir Guðmundur Ingi.
Sveitarfélögin réðu fólkið til sín í sérstöku samstarfi við Vinnumálastofnun. Þá greiðir Viðlagasjóður fyrir gistinguna og fjármögnunarleigur hafa lagt fólkinu til bíla til að fara á milli þeirra svæða og bæja sem þarf að hreinsa.