„Ég hef lengi haft dálæti á Suðurlandinu og oft verið að hugsa um hvað væri í stöðunni. Skoðaði bakaríið í Hveragerði áður en Almar opnaði þar og einnig á Hellu.
Við Guðni vorum miklir mátar og töluðum stundum um bakaríin á Suðurlandi. Eftir fráfall Guðna talaði ég við fjölskylduna og við náðum vel saman og úr varð að ég myndi kaupa reksturinn,“ segir Jóhannes Felixsson, betur þekkur sem Jói Fel, sem festi nýlega kaup á Guðnabakaríi á Selfossi og Kökuvali á Hellu.
„Ég og Sævar Birgisson slógum svo til báðir og tókum við rekstrinum um áramótin. Það lá beint við að taka líka við bakaríinu á Hellu þar sem Ómar ætlaði að loka því um áramótin.“
Allt framleitt á Selfossi
„Við munum því framleiða alla okkar vöru á Selfossi og aka henni á Hellu á morgnana. Við reiknum með að þurfa bæta við mannskap hjá okkur í vinnslunni og þegar nær dregur sumri þurfum við að öllum líkindum að fara tvær ferðir á dag með vörur á Hellu.“
Jói segir að nöfnin á bakaríunum muni halda sér, alla vega til að byrja með, en að tíminn leiði svo í ljós hvað verði um nöfnin.
„Ég kom með einn reyndan bakara með mér til að sjá um framleiðsluna og ég vona svo innilega að sem flestir haldi áfram að vinna í þessu góða bakaríi,“ segir hann spurður um hvort það verði mannabreytingar í bakaríunum.
Brauð með karakter
Að sögn Jóa mun vöruúrvalið breytast að mestu í það sem hann þekkir best og hefur verið að gera undanfarin ár.
„Með nýjum mönnum breytast áherslur og annað sem við kemur rekstrinum. Það sem mun breytast mest og það sem fólk mun finna mestan mun á eru brauðin. Þau verða öll bökuð í steinofni sem að mínu mati gerir þau miklu betri og skorpuna stökka og góða.“
„Við erum einnig með nokkrar tegundir af súrdeigsbrauðum, bæði gerlausum og með gerstarter sem er aðeins brotabrot af því sem notað er í venjuleg brauð. Það tekur allt upp í þrjá daga að búa til sum brauðin sem gefur þeim einstaklega gott bragð og karakter. Svo með tímanum munum við koma inn með fleiri nýjungar eins og kökur og meira sætabrauð.“
Vonar að heimamenn taki þeim vel
„Það er mikil áskorun að taka við svona gamalgrónu bakaríi þar sem allir þekkja alla og hefðin og vinskapur er mikill hjá öllum sem hafa verslað í gegnum árin. Selfoss er orðið svo stutt frá höfuðborginni, mikil sumarbústaðabyggð allt í kring svo ekki sé talað um ferðamanninn sem á leið hér um allt árið um kring. Það gerir þetta en meira spennandi og krefjandi.
Svo vona ég innilega að Selfyssingar, Hellubúar og allir nærsveitungar taki okkur vel. Við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að búa til góða vöru sem vonandi mun gleðja sem flesta,“ segir Jói að lokum.
[Á myndinni með fréttinni eru (f.v.) Rúnar Snær Jónsson, Viðar Ingólfsson, Sævar Birgisson, Jakob Burgel Ingvarsson nemi, Óskar Guðnason og Jóhannes Felixson.]