Mikil forföll kennara hafa verið við Sunnulækjarskóla á Selfossi undanfarna daga. Hafa þessi forföll raskað kennslu í skólanum og kennsla í sumum bekkjum verið alfarið felld niður. Til að mynda var engin kennsla í 1. bekk og 5. bekk í gær og börn í 6. bekk voru send heim eftir skamma viðveru í skólanum.
„Undanfarna daga hafa verið óvanalega mikil forföll meðal starfsmanna Sunnulækjarskóla. Allt frá vetrarfríi í síðustu viku hefur vantað yfir 40 starfsmenn til vinnu hvern dag. Yfirgnæfandi meirihluti þessara forfalla eru Covid-smit meðal starfsmanna og að einhverju leyti Covid veikindi barna starfsmanna,“ segir Birgir Edwald, skólastjóri við Sunnulækjarskóla, í samtali við sunnlenska.is.
Þurfa daglega að fella niður kennslu
„Svo virðist sem veruleg breyting á útbreiðslu Covid smita hafi orðið frá 18. febrúar og höfum við þurft að fella niður kennslu í einum til þremur árgöngum hvern dag síðan þá. Við höfum ekki skýringu á því hvers vegna þetta er en líklega má búast við að þegar allar takmarkanir eru felldar niður aukist útbreiðsla hratt á vinnustað sem telur á níunda hundrað einstaklinga.“
„Við bindum vonir við að senn förum við að komast yfir það versta og getum farið að halda úti fullri kennslu með hefðbundnum forföllum eins og venja er,“ segir Birgir að lokum en ætla má að viðlíka röskun á skólastarfi vegna Covid-smita sé víðar um land.