Mikil gleði var á fjölskyldu- og bæjarhátíðinni Flúðir um Versló í gær en þá var fyrsti opinberi dagur hátíðarinnar. Dagskráin gekk vel allan daginn og enn fjölgaði gestum á tjaldsvæðinu á Flúðum.
Þar er nú orðið nokkuð þétt setið en nóttin fór mjög vel fram að mati viðbragðsaðila sem eru með öflugt eftirlit á svæðinu sem og Flúðum í heild.
Minniháttar mál komu upp sem voru afgreidd á staðnum fljótt og vel.
Í dag verður boðið upp á barna- og fjölskyldudagskrá sem hefst kl. 12:00 í Lækjargarðinum og við félagsheimilið. Markaðsstemning, í boði fyrir alla verður að sjálfsögðu grænmeti úr Hrunamannahreppi, mjólkurvörur frá MS, glaðningur frá Íslenska Gámafélaginu, safar frá Ölgerðinni og fleira og fleira. Um klukkan 13:00 munu svo Sveppi og Villi skemmta gestum. Mikið af allskyns afþreyingu er í boði á svæðinu eins og til dæmis Loftboltar.is, Sprell leiktæki og TeygjuTrampolín.
Mesta athygli vekur jafnan Jötunn Traktoratorfæran sem fer fram í liltu – Laxá í Torfdal klukkan 15:00. Von er á fjölda dráttarvéla sem munu leika listir sínar í ánni og að sjálfsögðu keppa um besta tímann og flottustu tilþrifin. Þetta er viðburður sem enginn má missa af.
Í kvöld verða svo stórtónleikar með 200.000 Naglbítum sem hefjast kl. 21:00 og kvöldið endar með stórhátíðardansleik þar sem Stuðlabandið skemmtir ásamt Stefáni Hilmarssyni. Tónleikarnir og dansleikurinn fara fram í félagsheimilinu.
Enn er von á því að fjölgi í hópi gesta í dag og vilja því aðstandendur hátíðarinnar minna á að fara tímanlega afstað og njóta frekar en að lenda í bílaörtröð. Bent er á að stutt er að labba um allt á Flúðum og ökumenn hvattir til að nota stór bílastæði sem eru auglýst á Facebook síðunni Flúðir um Versló 2018.