Mikil gleði í þeim sem koma í verslunina

Ólafur Hlynur og Hanna Sigga í versluninni á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Síðastliðinn sunnudag opnaði verslunin Heimilið og jólin að Austurvegi 65 á Selfossi, þar sem sem A4 var áður til húsa.

Eigendur verslunarinnar eru hjónin Ólafur Hlynur Guðmarsson og Hanna Sigga Unnarsdóttir.

„Okkur langaði til að koma með eitthvað öðruvísi og skemmtilegt, eitthvað sem við sjálf höfum gaman af. Jólabúð hefur gengið vel fyrir norðan og því ætti hún ekki að ganga vel hér,“ segir Ólafur í samtali við sunnlenska.is.

„Óli er virkilega mikið jólabarn og því lá ljóst fyrir að hann myndi sjá um innkaupin fyrir verslunina,“ segir Hanna Sigga og bætir því við að vinir og fjölskylda þeirra hafi verið bæði áhugasamir og hjálpsamir þegar þeir fréttu af áformum þeirra hjóna en að þetta hafi þó komið flestum á óvart.

Frábærar viðtökur
„Viðtökurnar hafa verið frábærar. Maður sér mikla gleði í þeim sem koma inn í verslunina enda varla annað hægt þegar maður fer inn í jólabúð. Vefverslunin er á lokametrunum og vonandi verður hún til þess að fólk um allt land getur verslað við okkur,“ segir Ólafur.

„Við erum með rauðan dregil sem við setjum út í góðu veðri og vorum með hann úti á opnunardaginn. Hann vakti mikla kátínu og talaði fólk um að það hefði nú ekki áður gengið rauða dregilinn,“ segir Ólafur.

Einstakar jólavörur
„Verslunin heitir Heimilið og jólin. Við erum með með vörur sem henta heimilinu svo sem húsgögn, styttur og búsáhöld og fleira. Svo verðum við með nánast alla jólavöruvöru, allt frá jólakúlum og upp í jólaljós. Sumt sem fólk hefur séð í öðrum verslunum og annað sem verður aðeins hægt að fá hjá okkur svo sem gluggaljósin,“ segir Ólafur en fyrrnefnd gluggaljós minna á alvöru kerti sem sett eru út í glugga og hafa vakið þó nokkra athygli.

„Frá janúar og fram á haustið verður heimilið meira í sviðsljósinu en svo frá haustinu og fram að jólum fá jólavörunar meira og meira pláss. Við horfum á þetta sem lifandi verslun og hún mun taka breytingum. Vara sem er til í dag og klárast kemur hugsanlega ekki aftur heldur kemur eitthvað nýtt í staðinn. Við erum með mikinn fjölda vörunúmera og er aðeins brot af því úrvali í versluninni. Við fáum nýjar vörur í hverri viku fram að jólum og það má geta þess að við keyrum heim stærri pantanir í nágrenni Selfoss og Reykjavíkur,“ segir Ólafur að lokum.

Fyrri greinEinstök upplifun að æfa á Selfossi
Næsta greinBækur og bakkelsi í Húsinu á Eyrarbakka